Grunnatriði í notkun Eplica

Mikilvægustu hugtök

Í Eplica kerfinu eru vefir byggðir á vefsíðum. Með því að raða upp yfirsíðum og undirsíðum verður til veftré vefsvæðisins.

Efni er aðallega tvenns konar; annars vegar greinar (textafærslur) og hins vegar skjöl sem geta t.d. verið myndir, pdf-skrár, myndbönd og fleira.

Efnið er tengt við vefsíður og einingar á síðunum stýra því hvernig það er birt. Oft eru einingar tengdar við síðusniðmát, eða látnar birtast sjálfkrafa þar sem við á.

Dæmi 1: Dæmigerð textasíða

Á ímynduðum vef er vefsíðan "Aðsetur", hún hefur verið stofnuð sem undirsíða vefsíðunnar "Um okkur", sem aftur er undirsíða forsíðu.

Allar síður birtast á réttum stað í valmyndinni í vinstri hlið sem hefur verið stillt til að birtast sjálfkrafa á öllum síðum, óháð sniðmátum.

Vefsíðan "Aðsetur" notar síðusniðmát sem gæti t.d. heitið "Greinar - 2 dálkar".

Á síðunni er ein textafærsla (grein) og við greinina hefur verið tengd mynd (skjal) úr skjalasafni.

skema3a

Síðusniðmátið stýrir því hvernig greinin birtist þegar síðan er skoðuð.

Sama grein gæti verið tengd við aðrar vefsíður og birst á þeim líka (að því gefnu að rétt sniðmát séu valin).

Dæmi 2: Greinalisti

Gefum okkur að viðkomandi fyrirtæki opni nýtt útibú og vilji birta upplýsingar um það líka. Ein leið til þess væri að bæta nýrri grein við sömu síðu.

Ef fleiri en ein grein er tengd við vefsíðu með greinasniðmáti breytist framsetningin sjálfkrafa í greinalista.

Vefstjóri stofnar því nýja grein á sömu síðu, tengir við hana mynd úr skjalasafni og þegar greinin er vistuð bætist hún við greinalistann.

Þegar vefnotandi smellir á aðra hvora greinina opnast hún með sama hætti og í dæminu hér fyrir ofan.

skema4

Athugið að myndirnar þrjár sýna allar sömu vefsíðu, munurinn á framsetningu felst í því hvort sýndur er listi yfir allar tengdar greinar eða einungis stök grein.

Hér hefur síðueiningin verið stillt til að birta minnkaðar myndir í greinalistanum þar sem við á.

Ef nýja greinin um útibúið væri aftengd myndi framsetningin hrökkva sjálfkrafa til fyrra horfs.

Dæmi 3: Undirsíða

Önnur leið til að bæta við upplýsingum um hið nýja útibú væri að stofna sérstaka vefsíðu um það, t.d. sem undirsíðu "Aðsetur"-síðunnar.

skema5

Til þess fer vefstjóri á síðuna Aðsetur og stofnar nýja undirsiðu "Útibú" sem notar sama síðusniðmát.

Til verða tvær vefsíður og er ein grein tengd við hvora um sig. Hvorug síðan birtir því greinalista.

Vísun á nýju síðuna bætist sjálfkrafa í valmyndina vinstra megin.

Gott að vita

Af þessari nálgun Eplica kerfisins leiðir meðal annars eftirfarandi:

Tengingar vefsíðna og efnis:

  • Ákveðin grein getur verið tengd við fleiri en eina vefsíðu og þar með birst á mismunandi stöðum á vefnum.
  • Þegar fleiri en ein grein eru tengdar sömu síðu breytist framsetning hennar sjálfkrafa í að birta lista yfir greinar.
  • Sama mynd getur verið tengd fleiri en einni grein.
    • Mynd getur einnig verið tengd beint við vefsíðu, en það er sjaldgæfari notkun.
  • Til þess að "eyða" stakri grein (fjarlægja hana af vefnum) er slitið á tengingu hennar við vefsíðuna, við það birtist hún ekki lengur.
    • Vefstjóri getur þó fundið greinina í stjórnkerfi og endurheimt hana þaðan ef þörf krefur.

Síðusniðmát og einingar:

  • Með því að velja nýtt síðusniðmát breytist framsetning síðunnar.
    • Ef til dæmis er valið síðusniðmátið "Tóm síða - 2 dálkar" inniheldur það enga greinaeiningu og því birtast engar greinar (þótt þær séu enn tengdar síðunni).
    • Þegar upphaflega sniðmátið er valið aftur birtast tengdar greinar líkt og áður.
  • Ef einingu sem tilheyrir síðusniðmáti er breytt (eða eytt) verður sama breyting á öllum vefsíðum sem nota það sniðmát, óháð staðsetningu í veftrénu.
    • Því þarf að fara mjög varlega við að breyta einingum sem tengjast síðusniðmátum.

Breytingar á veftré:

  • Með því að færa vefsíðu á annan stað í veftrénu færist einnig allt efni (greinar og skjöl) sem tengt hefur verið við hana.
  • Valmyndir breytast sjálfkrafa þegar vefsíða er færð til í veftrénu.
  • Til þess að láta vefsíðu hverfa úr eru nokkrir möguleikar:
    • Hægt er að fela síðuna þannig að nauðsynlegt er að kunna vefslóð hennar til að finna hana
    • Hægt er að stilla aðgangi að síðunni þannig að hún er ósýnileg öðrum en innskráðum notendum
    • Hægt er að eyða henni að fullu.
      • Til að fyrirbyggja mistök leyfir Eplica ekki að síðu sé eytt ef eitthvað efni er tengt henni.
      • Því þarf vefstjóri að aftengja efni (greinar og skjöl) áður en síðu er eytt.



Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica